Einkenni og birtingarmyndir

Algengast er að MG byrji í augunum með tvísýni og eða augnlokasigi. Oft er augnlokasigið meira öðru megin. Tvísýnin er breytileg getur verið meiri þegar horft er til annarrar hliðar eða annað hvort upp eða niður. Tvísýnin byrjar oft sem óskýr sjón sem kemur og fer. Ef sjúkdómurinn heldur sig bara við augun eftir 2-3 ár er lang líklegast að hann dreifi sér ekki frekar. Um 15-20% einstaklinga með MG eru bara með augneinkenni; OMG (ocular MG).

Meiri hluti MG sjúklinga (80-85%) fær vöðvaslappleika í fleiri vöðva en augnvöðva (generalized MG= GMG). Andlitsvöðvar, augabrúnir og bros geta skekkst og andlitið sigið mismikið. Algengt er að beinagrindavöðvar verði fyrir barðinu á MG. Algengast er að það séu axlar- og mjaðmagrindavöðvar, hryggur og háls en upphandleggir og læri geta líka veikst. Um 6% fá sjúkdóminn bara í útlimi og hrygg án augn-, andlits- og bulbar einkenna en mjög fáir læknar eru meðvitaðir um það.

Svokallaðir bulbar vöðvar – vöðvar sem heilataugar nr. 9-12 stjórna verða mjög oft fyrir barðinu á MG. Bulbar vöðvar stjórna munni, tungu, gómi, koki og raddböndum. Einkennin geta verið erfiðleikar við að tyggja og loka munni, kyngingarerfiðleikar og breytingar á rödd. Drykkir og stundum matur geta farið upp í nefkok og jafnvel komið út um nefið. Matur getur staðið fastur í koki, sérstaklega í lok máltíðar eða farið afar hægt af stað eða hrokkið ofan í barka og valdið hóstaköstum. Sumum líður eins og að tungan sé of stór fyrir munninn og þau verða þvoglumælt. Önnur verða nefmælt eða hás og enn önnur missa kraftinn úr röddinni því lengur sem talað er. Ef að bulbar vöðvar eru veikir er algengt að öndunarvöðvar séu líka veikir, fyrst og fremst þindin en brjóstkassinn getur líka misst kraft. Um 15% MG sjúklinga fá einhvern tímann það mikla öndunarerfiðleika að þau þurfa á tímabundinni öndunaraðstoð að halda (MG krísa).

Athugið að þessi texti er í vinnslu og gæti tekið breytingum.