juliana_arna

Fólk stimplað með kvíða og deyr svo

Viðtal við Júlíönu Magnúsdóttur og Örnu Bech um MG sjúkdóminn á mbl.is þann 1. júlí 2024.

„MG er sjald­gæf­ur sjálfsof­næm­istauga­sjúk­dóm­ur þar sem lík­am­inn ræðst á mót tauga og vöðva,“ seg­ir Júlí­ana Magnús­dótt­ir hjúkr­un­ar­fræðing­ur um sjúk­dóm­inn my­asthenia gra­vis sem verður til­efni ráðstefnu á Íslandi í haust.

Lýs­ir Júlí­ana því í sam­tali við Morg­un­blaðið ásamt Örnu Bech – en þær þjást báðar af MG og eru stjórn­ar­kon­ur í MG-fé­lag­inu – að tauga­boðin ber­ist ekki yfir til vöðvanna nema að litlu leyti, jafn­vel alls ekki. „Þetta er sveiflu­kennd­ur sjúk­dóm­ur og má lýsa hon­um eins og vöðvarn­ir verði bens­ín­laus­ir vegna þess að við end­ur­tekna hreyf­ingu hætta þeir að virka,“ held­ur Júlí­ana áfram.

Sjúk­dóm­ur­inn hef­ur mjög mis­mun­andi áhrif á sjúk­linga og má jafn­vel segja að nán­ast eng­ir tveir fái ná­kvæm­lega eins ein­kenni, hef­ur hann þess vegna stund­um verið nefnd­ur snjó­korna­sýki, „snowfla­ke disea­se“, á ensku en Arna og Júlí­ana vilja ekki nota ís­lenska heitið vöðvaslens­fár sem marg­ir kann­ast við, hent­ugra sé að all­ir noti sama heiti, my­asthenia gra­vis eða MG.

Með MS og hryggikt að auki

„Sjúk­dóm­ur­inn er svo sjald­gæf­ur að heil­brigðis­starfs­fólk þekk­ir hann al­mennt ekki eða mjög illa og er oft haldið rang­hug­mynd­um um hann,“ held­ur hjúkr­un­ar­fræðing­ur­inn áfram og bæt­ir því við að þetta geti komið MG-sjúk­ling­um ákaf­lega illa þar sem þeir séu gjarn­an viðkvæm­ir fyr­ir ýms­um lyfj­um, sum lyf megi til dæm­is alls ekki gefa slík­um sjúk­ling­um þar sem inn­taka þeirra geti leitt til önd­un­ar­stopps.

„Lyf, veik­indi, streita, hita- og raka­stig, allt þetta get­ur haft áhrif á sjúk­dóm­inn hjá okk­ur og sveifl­urn­ar í hon­um,“ seg­ir Júlí­ana enn frem­ur og Arna skýt­ur því inn að þarna geti end­ur­tek­in áreynsla á vöðva einnig haft veru­leg nei­kvæð áhrif.

„Við Arna erum til dæm­is með mis­mun­andi ein­kenni þótt við séum með sama sjúk­dóm­inn og þetta get­ur flækt mál­in við grein­ingu auk þess sem við erum lík­legri en aðrir til að vera með ann­an sjálfsof­næm­is­sjúk­dóm eða aðra und­ir­liggj­andi sjúk­dóma,“ held­ur hún áfram en Arna er til dæm­is greind með multiple scleros­is, eða MS, bólgu­sjúk­dóm í miðtauga­kerfi, og Júlí­ana er hald­in hryggikt (sbr. ikt­sýki).

Þekkt og óþekkt mót­efni

„Annað sem flæk­ir mál­in er að ákveðið hlut­fall þeirra sem eru með MG er með það sem kallað er „seró-nega­tíft“,“ held­ur hjúkr­un­ar­fræðing­ur­inn Júlí­ana áfram, „oft þegar verið er að greina sjúk­dóm­inn er tek­in blóðprufa sem send er í grein­ingu er­lend­is til að leita að ákveðnum mót­efn­um. Eitt þeirra, AChR, er langþekkt­ast og er það eina sem leitað er að, en fyr­ir rúm­um tveim­ur ára­tug­um fannst annað mót­efni sem heit­ir MUSK og er talið að um tíu pró­sent þeirra sem eru með MG séu með MUSK-mót­efnið,“ út­skýr­ir hún.

Síðustu ár hafi svo þrjú mót­efni til viðbót­ar fund­ist og vafa­lítið séu þau fleiri. Þetta geti tor­veldað mál­in veru­lega hjá þeim sem hafa sjúk­dóm­inn en mynda ekki þekkt­ustu mót­efn­in.

Arna tek­ur nú við kefl­inu og seg­ir að á Íslandi fái sjúk­ling­ar aðeins grein­ingu á þekkt­ustu mót­efn­in, hin fá­ist ekki greind. „Þannig að þú færð kannski seró-nega­tífa grein­ingu en fólk hér á Íslandi er ekki prófað fyr­ir öll­um þekkt­um mót­efn­um,“ seg­ir Arna og bæt­ir við frá­sögn af því þegar hún ný­lega heim­sótti tauga­lækni.

„Hún vissi bara um fyrsta mót­efnið þótt hún sé menntaður tauga­lækn­ir. Lækn­ar hér vita ekk­ert hvert þeir eiga að senda sýni til að fá öll fimm mót­efn­in prófuð og þeir sem eru nei­kvæðir í blóðprufu eru þá ekk­ert prófaðir fyr­ir hinu,“ seg­ir hún og Júlí­ana gríp­ur orðið.

„Þetta get­ur skipt máli með til dæm­is lyf og hvað virk­ar. Fólk er stund­um sent í aðgerð þar sem hóstakirt­ill­inn er fjar­lægður, ég hef til dæm­is farið í þannig aðgerð sem virk­ar þannig að ein­kenn­in minnka oft mikið eða fólk fer hrein­lega í sjúk­dóms­hlé,“ seg­ir hún frá.

Sum­ir lækn­ar þekki aðeins eitt ein­kenni

Þetta úrræði hafi hins veg­ar ekki virkað fyr­ir þá sem séu með MUSK-mót­efni, aðeins AChR-virka og þá sem telj­ist seró-nega­tíf­ir. „Þannig get­ur verið mjög erfitt að fá rann­sókn­ir á hinum mót­efn­un­um,“ held­ur hún áfram og seg­ir ástandið raun­ar þannig um all­an heim.

Rann­sókn­ir á lyfj­um miðist flest­ar við sjúk­linga með AChR-mót­efni sem komi svo á markað og þá sé reynt að fá und­anþágur fyr­ir þá sem greinst hafi með önn­ur mót­efni til að nota lyf­in sem ætluð eru AChR-hópn­um. „Við vit­um að það eru mót­efni þarna en við vit­um ekki hver þau eru þannig að við þekkj­um þau ekki,“ út­skýr­ir Júlí­ana.

„Flest­ir lækn­ar þekkja al­geng­ustu ein­kenni MG,“ tek­ur Arna upp þráðinn hjá stöllu sinni, „til dæm­is latt auga þegar augn­lokið síg­ur niður. Sum­ir lækn­ar þekkja þó ein­göngu það ein­kenni og kannski önn­ur helstu ein­kenni sem koma fram á efri hluta lík­am­ans. Við Júlí­ana erum til dæm­is báðar með ein­kenni sem fara að koma fram í göngulagi okk­ar þegar við þreyt­umst,“ seg­ir hún.

Þannig dragi Júlí­ana ann­an fót­inn en Arna fái göngu­lags­ein­kenni sem les­end­ur geta skoðað á mynd­skeiði af konu á Face­book-síðu henn­ar en það má sjá hér.

Skype-fund­ir sér­stök upp­lif­un

Segja þær Arna og Júlí­ana frá því að eitt af þeim ein­kenn­um sem hjálpi MG-sjúk­ling­um að bera kennsl á sjúk­dóm­inn hver hjá öðrum sé þegar sjúk­ling­ar taki tal sam­an og séu fljót­lega báðir farn­ir að halla höfðinu upp að vegg til að fá hvíld vegna þess hve örðugt reyn­ist að bera lík­amann þegar sjúk­dóm­ur­inn herðir tak sitt á sjúk­lingn­um.

„Í covid vor­um við [MG-sjúk­ling­ar] á Skype-fund­um þar sem við vor­um í mynd og þá sá maður hvernig hin voru hvað lík­ams­stöðu snerti og hegðuðu sér í raun al­veg eins og maður sjálf­ur. Það var ótrú­lega sér­stakt,“ seg­ir Arna.

Júní var mánuður vit­und­ar­vakn­ing­ar um MG-sjúk­dóm­inn á heimsvísu og segja þær stöll­ur MG-fé­lagið á Íslandi vilja taka full­an þátt í þeirri vakn­ingu. Sér­stök þörf sé á slíkri vit­und­ar­vakn­ingu inn­an heil­brigðis­kerf­is­ins og séu fé­lags­menn all­ir af vilja gerðir til að ráða bót á skorti á al­mennri þekk­ingu heil­brigðis­starfs­fólks á sjúk­dómn­um.

Van­greind­ur sjúk­dóm­ur á Íslandi

Ein­kenn­in eru held­ur óþyrmi­leg, MG veld­ur tví­sýni, augn­loka­sigi, kyng­ing­ar- og önd­un­ar­erfiðleik­um og erfiðleik­um við hreyf­ingu en hreyf­ing eyk­ur enn frem­ur ein­kenn­in sem svo lag­ast í hvíld, sér­stak­lega á fyrstu stig­um.

Eng­ar tölu­leg­ar upp­lýs­ing­ar eru til um fjölda grein­inga MG hér­lend­is en að sögn viðmæl­enda þessa viðtals er stjórn fé­lags­ins aðeins kunn­ugt um 33 sjúk­linga á Íslandi. Miðað við nýja töl­fræði frá Norður­lönd­un­um ættu hins veg­ar 74 – 94 ein­stak­ling­ar að vera greind­ir með MG á land­inu, eða um sex ný­grein­ing­ar á ári.

Megi þar með ráða að MG sé tölu­vert van­greind­ur sjúk­dóm­ur á Íslandi eða að vitn­eskja sjúk­linga um MG-fé­lagið sé hrein­lega ekki fyr­ir hendi. Fé­lagið er þó til og er ný heimasíða rétt hand­an horns­ins en auk þess held­ur fé­lagið úti Face­book-síðunni MG-fé­lag Íslands.

Not­ar MS-hjálp­ar­tæk­in við MG

„Þessi sjúk­dóm­ur skerðir lífs­gæði okk­ar mjög mikið, það verður svo erfitt að halda sér uppi,“ seg­ir Arna, „og annað sem er hræðilegt með þenn­an sjúk­dóm. Ég er svo hepp­in að vera með MS-grein­ingu svo ég fæ hjálp­ar­tæki. Ég er með hjóla­stól sem ég get notað slæmu dag­ana, ég er með stól í sturt­unni og borð sem ég get sett yfir rúmið mitt. Ég fæ þetta allt út á MS-ið en nota það við MG-inu,“ út­skýr­ir Arna lygi­lega staðreynd en sanna.

Þetta fái „venju­leg­ir“ MG-sjúk­ling­ar hins veg­ar ekki þótt þeir séu marg­ir hverj­ir mjög veik­ir og fái erfið köst. „En vanþekk­ing­in er svo mik­il að þeir fá bara nei hjá sjúkra­trygg­ing­un­um sem er nátt­úru­lega mjög slæmt. Minn draum­ur er að fræðsla um MG verði tek­in upp og fólk fari að vita hvað þetta er. Ég fæ stund­um tíma­bil þegar ég á erfitt með að anda. Ég hef lesið um til­felli þar sem fólk er­lend­is lend­ir í því og leit­ar á bráðamót­töku þar sem þetta er bara af­greitt sem kvíði. Svo er fólk sent heim og lend­ir í önd­un­ar­stoppi, en súr­efn­is­mett­un­in er full­kom­in fram að því er það ger­ist,“ seg­ir Arna blákalt.

Júlí­ana út­skýr­ir til hlít­ar: „Það sem ger­ist er að inn­önd­un­in er ekki vanda­málið held­ur út­önd­un­in, önd­un­ar­vöðvarn­ir ráða ekki við að anda út, vöðvarn­ir milli rifj­anna og þind­in. Mæl­ing­in sem er notuð venju­lega er súr­efn­is­mett­un og hún get­ur hald­ist uppi á meðan kolt­ví­sýr­ing­ur safn­ast upp í blóðinu og það er það sem er hættu­legt. Þetta er hins veg­ar ekki mælt í venju­leg­um mæl­ing­um,“ seg­ir Júlí­ana og kveður þekk­ingu á sjúk­dómn­um lífs­nauðsyn­lega. „Fólk er stimplað sem kvíðasjúk­ling­ar og jafn­vel sent á geðsjúkra­hús er­lend­is þar sem það hef­ur lát­ist úr kolt­ví­sýr­ingseitrun,“ seg­ir hjúkr­un­ar­fræðing­ur­inn.

Ligg­ur í þrjár vik­ur

„Þetta er óút­reikn­an­leg­ur sjúk­dóm­ur,“ seg­ir Arna, „við vit­um aldrei hvernig við erum og við þurf­um að spara okk­ur fyr­ir ýms­ar aðgerðir. Ég get farið og málað vegg á hús­inu mínu og þú sérð mig uppi í stiga, en svo ligg ég kannski í þrjár vik­ur af því að það tók alla mína krafta,“ seg­ir hún af kverka­taki MG sem allt of lít­il þekk­ing finn­ist um í ís­lensku heil­brigðis­kerfi.

Þær Arna og Júlí­ana segja að lok­um frá ráðstefn­unni My­asthenia gra­vis – lífs­gæði og meðferð í sept­em­ber sem hald­in verður í tengsl­um við fast­an fund MG-fé­laga á Norður­lönd­um sem fram fer annað hvert ár.

„Fyr­ir tveim­ur árum var ráðstefna í Dan­mörku tengd þessu og í fram­haldi af henni var skrifuð grein um ráðstefn­una og niður­stöður henn­ar sem birt­ist í tíma­rit­inu Europe­an Journal of Neurology og ráðstefn­an núna á Íslandi er hálf­gert fram­hald af þess­ari ráðstefnu í Dan­mörku,“ seg­ir Arna.

„Nú fáum við sjö fagaðila og fræðimenn til lands­ins,“ seg­ir Júlí­ana Magnús­dótt­ir en Arna Bech á loka­orð viðtals­ins fyr­ir hönd tveggja MG-sjúk­linga sem ákalla ís­lenskt heil­brigðis­kerfi um taf­ar­laus­ar úr­bæt­ur og stór­aukna fræðslu.

„Okk­ar draum­ur er að sjá ís­lenska fagaðila á ráðstefn­unni, ein­hverja sem vinna með fólk, þannig að þeir öðlist þekk­ingu á sjúk­dómn­um,“ seg­ir hún vongóð.