MG er stytting á heitinu Myasthenia Gravis sem á íslensku hefur fengið heitið vöðvaslensfár. Við kjósum að nota styttinguna MG hér á síðunni.
MG er sjaldgæfur sjálfsofnæmissjúkdómur í taugavöðvamótum sem veldur sveiflukenndu vöðvakraftleysi og þreytu sem getur haft víðtæk áhrif á lífsgæði. Kraftleysið verður vegna þess að skilaboð frá taug til vöðva um að hann eigi að dragast saman komast ekki nægilega vel til skila. Mjög einstaklingsbundið er hve útbreitt vöðvakraftleysið er hjá hverjum og einum en flest eru með einkenni frá augum en sjúkdómurinn getur líka náð til andlits-, munn- og kyngingavöðva, háls-, bak-, útlima- eða öndunarvöðva.
MG sjúkdómurinn versnar oft hratt eða sveiflast mest fyrstu 2-3 árin en algengast er að alvarlegustu atvikin komi oft upp á því tímabili en síðan kemst meira jafnvægi á þó sjúkdómnum fylgi alltaf sveiflur. MG byrjar oft eins og þruma úr heiðskíru lofti í kjölfar álags eða áfalla, svo sem sýkingar, slyss, svæfingar, barnsburðar eða lyfjagjafar. En MG getur líka læðst að fólki. Ættarsaga um sjálfsofnæmissjúkdóma er algeng en um 15% MG sjúklinga eru með eða munu fá aðra sjálfsofnæmissjúkdóma. Algengara er að konur fái MG sjúkdóminn ungar en karlar á efri árum en allur gangur er samt á því. Börn geta líka fengið MG. Margt fólk með MG er með stækkun á hóstakirtli og sum með góðkynja æxli.
Þó líf með MG sé oft mikil áskorun eru til ýmis meðferðarúrræði og bjargráð sem létta róðurinn. Þegar um er að ræða svona fátíðan sjúkdóm er almenn þekking og reynsla fagfólks oft takmörkuð sem flækir málið þegar kemur að greiningu og meðferð. Meðferðarúrræði eru flest sérhæfð og einungis á forræði taugalækna að ávísa þeim. Því skiptir miklu máli að komast að hjá sérfræðingum sem þekkja sjúkdóminn vel en ekki síður að geta leitað í reynslubanka annarra MG sjúklinga varðandi bjargráð daglegs lífs. Afar mikilvægt er að MG fólk hafi sjálft sem mesta þekkingu á eigin sjúkdómi því margt ber að varast sem getur valdið versnun á sjúkdómnum. Að hitta annað fólk með sama sjúkdóm, fólk sem þekkir af eigin reynslu hvað það er að lifa með MG er ómetanlegt, sérstaklega fyrir þau sem eru nýkomin með greiningu. MG félagið gegnir lykilhlutverki í að koma á tengslum milli MG fólks.
Athugið að þessi texti er í vinnslu og gæti tekið breytingum.