Þegar heilinn gefur viljastýrðum vöðva skipun um að dragast saman gerist eftirfarandi hjá heilbrigðum einstaklingi:
Boð berast frá heilanum til vöðvans með taugarafboðum. Þegar rafboðin ná út í taugaendann losar tauginn boðefni (ACh=acetylcholine) sem hún geymir þar. Boðefnið flæðir yfir á móttökusvæði (endplate) á hverjum vöðvaþræði í vöðvanum. Þar eru þéttar raðir boðefnisviðtaka (AChR) sem boðefnið leitar uppi og festist á. Þegar nægilega margir viðtakar á hverjum vöðvaþræði eru þaktir boðefnum dregst sá vöðvaþráður saman. Í heilbrigðum vöðva dragast allir vöðvaþræðirnir saman á sama tíma. Boðefnið brotnar síðan hratt niður fyrir tilstilli ensíms (acetylcholinesterase) og það slaknar á vöðvanum. Taugaendinn endurnýtir niðurbrotsefnin og býr til meira boðefni úr þeim sem hann geymir í litlum blöðrum þar til næstu rafboð berast.
Hjá fólki með MG veldur sjálfsofnæmi skemmdum á móttökusvæði vöðvans, viðtökunum bæði fækkar og þeir verða verr til þess fallnir að taka við boðefni. Þegar boðefnið flæðir yfir á móttökusvæðið nær það ekki að festast við nægilegan fjölda viðtaka þannig að aðeins sumir vöðvaþræðirnir dragast saman. Því færri vöðvaþræðir vöðvans sem fá boð um samdrátt því erfiðara á vöðvinn með að dragast saman. Því oftar sem taugin reynir að senda boð um slíkt á stuttum tíma því minni verður vöðvakrafturinn. Tímabundin hvíld getur gefið tímabundið meiri kraft.
Viðtakasvæði vöðvans er sem betur fer í stöðugri endurnýjun og því getur fólk með MG átt betri tímabil inn á milli verri tímabila svo fremi sem niðurbrotinu er haldið í skefjum. Sum komast í sjúkdómshlé sem getur staðið í mismunandi langan tíma.
Sjálfsofnæmið sem veldur MG sjúkdómnum verður fyrir tilstuðlan sjálfsofnæmismótefna og magnaþátta (complement). Um 80% einstaklinga með MG hafa mótefni gegn ACh viðtakanum (AChR antibodies eða AChR-ab) sem mælist þó ekki alltaf í byrjun sjúkdómsins. Hin 20% eru annað hvort ekki með mælanleg mótefni eða með önnur mótefni eins og gegn MuSK, LRP-4, Agrin eða öðrum byggingaþáttum á móttökusvæði vöðvans. Ekki er hægt að mæla sjálfsofnæmismótefni MG sjúkdómsins á Íslandi þannig að blóðprufan er send á rannsóknastofu erlendis. Sum þessara mótefna eru bara mæld þegar gerðar eru vísindarannsóknir.
Athugið að þessi texti er í vinnslu og gæti tekið breytingum.