1. grein
Félagið heitir MG félag Íslands (The Myasthenia Gravis association of Iceland). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið er aðili að ÖBI réttindasamtökum svo og alþjóðlegum samtökum MG félaga.
2. grein
Tilgangur félagsins er að vinna að fræðslu um MG sjúkdóminn (Myasthenia Gravis) og velferð MG sjúklinga, með því að veita aðstoð, stuðning, fræðslu.
Félagið er málsvari gagnvart hinu opinbera og öðrum aðilum.
Markmið félagsins eru þessi:
- að auka kynni og samstöðu MG sjúklinga.
- að afla upplýsinga um MG sjúkdóminn, eðli hans og meðferðarmöguleika.
- að miðla upplýsingum um MG sjúkdóminn til MG sjúklinga, aðstandenda, heilbrigðisstétta, stjórnvalda og almennings.
- að stuðla að auknum rannsóknum á MG sjúkdómnum.
- að beita sér fyrir bættri meðferð og aðstöðu MG sjúklinga.
- að vera í forsvari fyrir MG sjúklinga gagnvart stjórnvöldum og almenningi , svo og hliðstæðum félögum hér á landi og erlendis.
- að eiga samstarf við önnur félög af svipuðum toga hérlendis og erlendis.
- Miðla þekkingu um MG sjúkdóminn til annarra MG sjúklinga og þá sérstaklega hvað sjúklingurinn getur nýtt sér til þess að auðvelda líf sitt og auka lífsgæði sín.
3. grein
MG félag Íslands er félag MG sjúklinga á Íslandi svo og þeirra sem áhuga hafa á félagsaðild.
4. grein
Félagið aflar tekna með árgjöldum félagsmanna, gjöfum og styrkjum sem því kann að áskotnast. Tekjur félagsins renna til almennrar félagsstarfsemi, fræðslu, stuðnings, reksturs og hagsmunagæslu.
5. grein
MG félag Íslands hyggst vinna að markmiðum sínum með því að efna til funda til kynningar, fræðslu og skemmtunar. Einnig með útgáfu bæklinga um málefni MG sjúklinga, með þátttöku í störfum með hliðstæðum félögum, upplýsingagjöf til stjórnvalda og almennings, fjáröflun og á hvern þann hátt, sem að gagni kemur.
6. grein
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn eigi síðar en í maí ár hvert.
Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað með sannanlegum hætti með í það minnsta tveggja vikna fyrirvara og skal dagskrá aðalfundar tilgreind í fundarboði. Fundarstað og fundartíma skal tilgreina í fundarboði. Fari fundur fram að hluta eða alfarið um fjarfundarbúnað skal þess getið í fundarboði. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir sem eru skráðir í félagið og skulu aðilar vera skuldlausir við félagið. Ritari og gjaldkeri skulu kanna kjörgengi fundarmanna við upphaf fundar. Hver atkvæðisbær félagsmaður hefur eitt atkvæði á aðalfundinum og ræður afl atkvæða úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagsins. Samþykktum félagsins má aðeins breyta á aðalfundum félagsins, enda hafi þess verið getið i fundarboði. Þarf til meirihluta atkvæða.
7. grein
Á aðalfundi skulu þessi mál vera tekin til meðferðar:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar.
- Ársreikningar félagsins lagðir fram.
- Upphæð árgjalds ákveðin.
- Kosning stjórnar
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
- Kosning aðalfulltrúa og varamanna á aðalfund ÖBÍ.
- Önnur mál.
8. grein
Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum, formanni, gjaldkera, ritara og tveimur til vara. Kjósa skal stjórn og skoðunarmenn til eins árs í senn.
9. grein
Aðalfundi einum er heimilt að ákvarða hvort greiða eigi stjórnarlaun. Stjórn setur reglur er varða ferðir og dvalarkostnað vegna ferða fulltrúa félagsins á ráðstefnur og fundi sem stjórn hefur samþykkt þátttöku í.
10. grein
Boða skal til framhaldsaðalfundar svo fljótt sem auðið er ef meirihluti stjórnar eða a.m.k. fjórðungur félagsmanna fer fram á það skriflega og leggur fram tillögu að dagskrá.
Stjórnarfundi í MG félagi Íslands skal halda þegar þurfa þykir og skal boða varamenn á fund einnig. Formaður sér um að boða til stjórnarfunda en þá skal halda eigi sjaldnar er tvisvar á ári. Stjórnarfundi skal einnig halda ef í það minnst tveir stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnarfundur er löglegur og ályktunarbær ef þrír stjórnarmenn eða varamenn sækja fundinn. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Boða skal til stjórnarfunda með að lágmarki þriggja daga fyrirvara. Halda skal gerðarbók um störf á félags- og stjórnarfundum.
11. grein
Stjórnin ræður málefnum félagsins milli aðalfunda með þeim takmörkunum sem lög þess setja. Bannað er að skuldsetja félagið umfram eignir þess.
Stjórn ritar firma félagsins.
12. grein
Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki meirihluta greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði.
13. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar skulu skoðaðir af tveimur skoðunarmönnum sem aðalfundur kýs.
14. grein
Til þess að leggja félagið niður þarf samþykki tveggja félagsfunda og sé annar aðalfundur. Skulu félagsslitin samþykkt með a.m.k. 4/5 hlutum greiddra atkvæða á hvorum fundi. Geta skal sérstaklega tillagna um félagsslit í fundarboðum. Verði félagið lagt niður, skal eignum þess ráðstafað til ÖBÍ réttindasamtaka.
15. grein
Þessi lög voru þannig samþykkt á aðalfundi MG félagsins 22.05.2025 og falla þá jafnframt eldri lög úr gildi.