Meðferðarúrræði

Til eru mörg meðferðarúrræði við MG og skiptast gróft í einkennameðferð, ónæmisbælingu og aðgerð.

Fyrsta meðferð við MG er oftast lyf sem heitir Mestinon (pyridostigmin) sem slær á einkennin en stoppar sjúkdóminn ekki af. Mestinon þarf oftast að taka mörgum sinnum á dag þar sem áhrif þess gætir bara í 3-5 klst. Ef Mestinon þolist illa er hægt að prófa astmalyf eins og terbutaline eða salbutamol.

Ónæmisbælandi meðferðir eru oftast nauðsynlegar til að stoppa skemmdirnar sem sjálfsofnæmið veldur. Langtímalyfjagjöf er oftast í formi lyfja eins og azathioprine/Imurel, mycofenolat mofetil, methotrexate, tacrolimus, cyclosporine eða cyclophosphamide. En þessi lyf eru mjög lengi að virka en virka oft vel ef fólk þolir þau. Í byrjun er oft er gripið til steragjafar til að ná fljótt tökum á sjúkdómnum og til að brúa bilið þar til hin lyfin fara að virka. Eins eru sterar oft notaðir vegna  skyndilegrar versnunar og þá oft gríðarlega háir skammtar í mjög stuttan tíma. Við alvarlegri versnun er hægt að grípa til mótefnagjafar í æð (Immunoglobulin meðferð, IVIG) eða við blóðvatnsskilun (plasmapharesis) ef öndunarbilun er yfirvofandi. Ónæmisbælandi líftæknilyf sem heitir Rituximab er oft notað snemma í sjúkdómnum ef önnur lyf þolast illa eða skila ekki árangri og eins ef MG sjúklingurinn er t.d. með annan sjálfsofnæmissjúkdóm.

Hóstakirtilsbrottnám er oft gert fljótlega eftir greiningu á MG, hvort sem stækkun eða æxli finnst í kirtlinum eða ekki. Aðgerðin getur átt þátt í að bæta MG sjúkdóminn og jafnvel komið MGinu í sjúkdómshlé. Full áhrif af aðgerðinni geta verið að skila sér í allt að 3-5 ár.

Athugið að þessi texti er í vinnslu og gæti tekið breytingum.